fimmtudagur, júní 7

0-5

Ég ólst upp í sveit. Fótboltaáhugi var við frostmark á heimilinu og ekki voru neinir leikfélagar í nágrenninu sem hægt var að læra af. Man að ég sá ensku knattspyrnuna í sjónvarpinu og fannst þetta spennandi og reiknaði út að fyrst markmennirnir voru alltaf í grænni peysu væri alveg sama í hvaða mark maður skyti boltanum. Svo byrjaði ég í skóla. Einhvern tímann á fyrstu vikunum var hóað til bekkjarmóts í fótbolta og ég taldi mig nú kunna þetta. Þegar loks náði að sýna mér fram á hvað ég væri að gera vitlaust var það of seint: ég var búinn að skora nokkur sjálfsmörk og fagna þeim í barnslegri sjálfumgleði. Það getur verið harkalegt að reka sig á það sex ára að um suma hluti í lífinu gildi strangar reglur. Áfallið var þvílíkt að ég kom ekki nálægt fótbolta í mörg ár (áhuginn kviknaði aftur þegar ég sá Socrates og Zico). Ég hugsa að íslenska landsliðinu líði eitthvað svipað í dag. Ég hafði þá afsökun að vera bara sex ára. En þeir?

Engin ummæli: