föstudagur, ágúst 24

auglýsingar

Þótt ég sé vonabí kvikmyndagerðarmaður og langi til að geta unnið við það þegar ég er stór/stærri/feitari þá hef ég aldrei haft nokkurn áhuga á að gera auglýsingar. Flestar auglýsingar eru hallærislegar og illa gerðar, og þær sem eru vel gerðar og flottar eru venjulega útlenskar. Ég er semsagt ekkert sérstaklega hrifinn af íslenskum auglýsingum, þær eru kannski fagmannlega gerðar svo sem, en af einhverjum ástæðum apa allir útlitið upp eftir öðrum. T.d. er blákalda lúkkið enn við lýði og búið að vera lengi, sem ég skil ekki því ég er löngu búinn að fá upp í kok af því (mínar fagurfræðilegu taugar eru afar viðkvæmar, skiljiði). Efnistökin eru líka sjaldnast frumleg. Það er samt ein auglýsing sem mér finnst flott og er í gangi núna, sú frá símanum, þar sem allir eru uppi á þaki að sarga niður loftnet. Efnislega kannski frekar kjánaleg, en óneitanlega fagmannlega gerð, myndataka og klipping flott og góður ryþmi (veit einhver hver gerði hana?). Og ekkert kaldblátt lúkk. Hins vegar langar mig mest að hengja mig þegar spron-auglýsingarnar birtast...

(Getið horft á auglýsinguna hér. Fyrsta skotið er flottast.)

Engin ummæli: