sunnudagur, ágúst 26

sumarið er tíminnJæja, þá er sumarið að hausti komið. Eða svo gott sem. Þetta var svona helst:

 • Vann eins og vitleysingur, of mikið og of lengi
 • Rabbaði við vinstrigrænan bónda í kirkjugarðinum í Hvammi
 • Keyrði einu sinni í gegnum Hvalfjarðargöngin og fór Hvalfjörðinn í bakaleiðinni
 • Fór á Hornafjörð. Þar ber jökulinn við himinn en landið virkaði samt ósköp jarðneskt.
 • Fór heim í heiðardalinn. Þar er alltaf ró og friður. Og fullt af bókum. Horfði með valkvíða í hjarta á ritsöfn Gests Pálssonar, Halla Killa Lax, Einars H Kvaran, Knut Hamsun (á norsku), Jóns Trausta, Gunnars Gunnarssonar (eldri útgáfu) auk Flateyjarbókar, Hómerskvið(n)a, Gösta Berlingssögu og ég veit ekki hvað annað. Endaði á því að lesa smásögu e. Sigrid Undset (út af teiknimyndinni) í úrvali norskra smásagna frá 19. og 20. öld, sem Snorri Hjartarson tók saman. Komst ekki yfir meira, enda veðrið of gott.
 • Fann gömul Samúelblöð og vænan bunka af Bravo-blöðum ofan í skúffu í heiðardalnum. Nena á forsíðunni á einu blaði. Og Limahl á öðru. Gluggaði í eitt Samúelblaðið og sá að nakta fyrirsætan var sögð vera 14 ára! Það hefur margt breyst á 20 árum.
 • Sá einmitt unglingsstúlku kaupa Bravo í Eymundsson, við afgreiðslukonan vorum bæði steinhissa á því að a) Bravo skuli ennþá vera til og b) að það þyki ekki of hallærislegt fyrir unlingsstelpur.
 • Sleppti menningarnótt, nokkurn veginn vegna leti. Fékk þá snilldarhugmynd að keyra út á Granda og horfa á flugeldana þar, en hætti við þegar ég sá að allir hinir Reykvíkingarnir fengu sömu hugmynd.
 • Eignaðist mitt eigið vist í Sly 1 og Sly 3.
 • Fylgdi sínum hvorum gestinum til Grímsa og Brynju. Svo skemmtilega vildi til að þessi sinn hvor gestur er fyrrverandi par. Vandlifað, ha?
 • Frétti af minnst sex óléttum á tveimur vikum.
 • Fór og horfði og hlustaði á Jens Lekman í bland við rigningarniðinn. Það var indælt.
 • Las Harry Potter og komst við.
 • Viknaði líka á Gay Pride (eins og fleiri) þegar Páll Óskar fyllti loftið af gleði.
 • Keypti regnbogafána og stendur hann nú í stofuglugganum. Talandi um að senda út röng skilaboð.
 • Kláraði að hanna tvær heimasíður, aðra með hjálp og hina hjálparlaust.
 • Uppgötvaði Brissó og Reykvískt Eðalefni (og þó, kannski fyrr, en allavega var sumarið hennar tími)
 • Fékk ógeð á skoðunum og hætti á tímabili að hafa skoðanir (jebb, moggabloggið).
Annars er sumarið 2007 merkilegt fyrir þetta: Saving Iceland mótmæltu í gríð og erg og hvaða skoðun sem maður hefur svo á þeim, þá náðu þau að fletta ofan of þeirri staðreynd að íslendingar eru upp til hópa þjóðernissinnaðir fasistar. Mig hafði reyndar grunað þetta lengi, en þarna kom fólk endanlega úr felum og virtist ekkert skammast sín fyrir það.

7 ummæli:

hildigunnur sagði...

Brissó er stundum snilld.

Ekki hætta að hafa skoðanir út af Moggabloggi, það er ekki þess virði.

Ég er stolt af að styðja Saving Iceland. Þetta eru flottir krakkar sem skammast sín ekki fyrir skoðanir sínar. Og fá ekki borgað fyrir það!

GummiE sagði...

Ég veit bara ekki, það sem fólk virðist almennt kalla skoðanir eru oft ekkert annað en upphafnir fordómar. Þ.e. fólk gefur sér eitthvað fyrirfram án þess sérstaklega að hugsa mikið um það og byggir skoðanir sínar og rök upp út frá því. Það má svosem kalla þvæluna í Jóni Vali Jenssyni "skoðanir", en þá erum við komin út í einhverja vitleysu. Það sem ég er að reyna að segja að ég hef ekkert á móti skoðunum sem slíkum, heldur orðræðunni sem kallast "skoðanaskipti". Ég held að Kastljósið og Ísland í dag eigi mikla sök á þessu, fenginn er einn viðmælandi með og annar á móti og helst eins langt í burt frá hvor öðrum og hægt er (Gunnar í Krossinum og Biggi í Vantrú). Auðvitað verður útkoman bara eitthvað bull út í loftið. Ef fólk áttaði sig á því að það er alls ekki nauðsynlegt að taka einarða afstöðu í öllu og hafa skoðanir á öllu, þá yrði allt miklu greindarlegra. Svona eins og Laxness sagði um Taó: það sem eftir stendur þegar maður er búinn að hafna öllu öðru. Þess vegna held ég að allir verði á endanum einhvers konar anarkistar ef þeir leyfa sér að sleppa fordómunum og "skoðununum", sem er þó ekkert að fara að gerast í bráðina.

Og Saving Iceland á alla þökk skilið.

Siggalára sagði...

Já, þetta er ekki ímyndun í mér, er það? Það eru alveg asnalega margir óléttir.

GummiE sagði...

Það eru endalausar ástarvikur út um allt, að því er virðist.

Harpa J sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Harpa J sagði...

Í dag er ég alveg skoðanalaus og alls ekki ólétt... Samt er ég ekki frá því að þetta sé nokkuð skemmtileg upptalning.

Kristín í París sagði...

Mín skoðun er sú að þetta er skemmtilegt uppgjör á sumrinu, sumt er þó helst til dularfullt.