miðvikudagur, september 19

úff...

Get ekki beðið eftir að komast úr þessu regni þangað sem allir vegir liggja (þ.e. þeir sem ekki liggja til allra átta). En þið skuluð endilega panta ykkur ljóðabók. Það gerði ég:

Í byrjun nóvembermánaðar kemur út ljóðabókin Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum eftir Eirík Örn Norðdahl, hjá Nýhil. Bókin, sem er vel ríflega 200 síður, inniheldur m.a. 50 blaðsíðna ljóðabálk um liðhlaupa úr Þorskastríðinu, 8 blaðsíðna ljóðahljóðabálkinn Einræðisherrarnir, og 60 blaðsíðna róttæka endurvinnslu á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, auk ljóðsins Parabólusetning, sem hlaut viðurkenningu í Ljóðstafi Jóns úr Vör fyrr í ár, og fjölda annarra ljóða, bæði ljóðmælandi og framúrstefnandi nýmæla í íslenskri ljóðagerð. Þá skrifar Ingólfur Gíslason formála að bókinni, Haukur Már Helgason er höfundur miðmála og eftirmálann ritar Bryndís Björgvinsdóttir.

Prentkostnaður er höfundum og forlögum oft þungur róður, og því hefur Nýhil gripið til þess ráðs að selja verk þetta í forsölu á verði sem varla á sinn líka, þar sem gefinn verður 60% afsláttur af útsöluverði, sem verður 2.500 krónur, og bókin seld á sléttan þúsundkall.

Ath.: einungis 200 eintök verða seld í forsölu.

Á kápu bókarinnar lýsir ljóðskáldið Valur Brynjar Antonsson bókinni svo: „Nú í þessa tíð þarf eitthvað eins og öxulveldi hins illa, öxul yfir vötnin, öxul sem spannar Ísafjörð, flugstöð Leifs Eiríkssonar og Helsinki City, til að skjóta fallbyssukúlum í hnakkann á hversdagsleikanum, töfrunum og einfaldleikanum. Nú þurfum við hryðjutíð, fellalög og kannski ekki síst hreðjatök, því að þegar kemur að Estrógeni, þá sýnir Eiríkur að „less is more“.“

Bókina er hægt að panta með að senda skáldinu póst á netfangið kolbrunarskald@hotmail.com.

föstudagur, september 14

When in Wome, do like the Womans (and thwow him to the floow...)

Jæja, ég er að fara til Rómar eftir rúma viku. Reyndar er þetta vinnuferð, þannig að ég fæ ca. 2 daga til að valsa um á eigin spýtur. Mælir einhver með einhverju sérstaklega til að gera á stuttum tíma? Ég reyni kannski að kíkja á kolóseum, nenni því þó varla ef það er mikil röð. En hvað með annað? Einhver söfn? Veitingastaðir? Cool places? Indíplötubúðir?

þriðjudagur, september 11

Snúður
Hvem er du i Mummidalen?

Mitt resultat:
Snusmumriken
Du er Snusmumriken! Du er modig og rolig. Du er også selvstendig og kan ta vare på deg selv, men du er likevel venn med alle.
Ta denne quizen på Start.no

laugardagur, september 8

upprifjun á kvöldmáltíð

laultimacena.jpg

Umræðan um auglýsingu Símans er dæmigerð uppkokkuð platumræða. Fyrirtæki velur efni í auglýsingu sem það veit að getur stuðað einhverja, fjölmiðlar grípa boltann á lofti og spyrja biskup hvort honum finnist þetta ósmekklegt og slá upp í fyrirsögn að ríkissaksóknari ætli ekki að kæra. Viðtalið við ríkissaksóknara hefur eflaust verið einhvern veginn svona (í nokkuð styttri útgáfu):

Blaðamaður: Ætlarðu að kæra?
Ríkissaksóknari: Nei.

Eftir stendur að sagt er að hinn og þessi hafi sagt þetta eða hitt um málið og hafi þessa eða hina skoðun á því, þegar enginn hefur í raun sagt neitt (í það minnsta af sjálfsdáðum). Ergó: umræðan er tilbúin, hún var aldrei til. Þetta er allt bara léttur samkvæmisleikur í boði Símans til að stytta okkur stundir í haustlægðunum.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem útúrsnúningur á verki Da Vinci veldur e.k. fjaðrafoki (verk Da Vincis var svo í sjálfu sér útúrsnúningur á öðrum útúrsnúningi á atburði sem gerðist svo kannski aldrei). Luis Buñuel hafði t.d. dvalið í útlegð í Mexíkó allt frá því Frankó tók völdin á Spáni 1939. Árið 1960 ákvað hann að snúa aftur til Spánar til að taka upp kvikmyndina Viridiana, ekki síst fyrir tilstuðlan spænskra leikstjóra eins og Juan Antonio Bardem sem fannst að það þyrfti að kynna snillinginn fyrir nýrri kynslóð spænskra kvikmyndagerðarmanna. Spænsk stjórnvöld ákváðu að gefa gamla súrrealistanum séns og hann dvaldi í Madrid árið 1961 við tökur á myndinni. Hún var svo frumsýnd á Cannes.

Myndin fjallar í stuttu máli um Viridíönu, unga nunnu sem er uppfull af kristilegum kærleika og einfeldni. Hún ákveður að dveljast um stund hjá frænda sínum, don Jaime, áður en hún gengur endanlega í klaustur. Don Jaime verður ástfanginn af henni þar sem hún líkist konunni hans heitinni, en Viridíana vill ekki þýðast hann og don Jaime hengir sig. Viridíana erfir setrið og þarf því að takast á við nýtt líf óundirbúin. "Mig hafði alltaf langað til að gera gamanmynd þar sem ég túlka kynferðislegar og trúarlegar þráhyggjur úr barnæsku minni. Trúarleg uppfræðsla og súrrealismi mörkuðu mig fyrir lífstíð", sagði Buñuel um myndina. Myndin komst af einhverjum ástæðum klakklaust í gegnum spænska ritskoðun og var send til Cannes sem fulltrúi Spánar þar sem hún vann gullpálmann. Daginn eftir verðlaunaafhendinguna í Cannes birtist grein í dagblaðinu L'Obsservatore Romano, málgagni páfadóms, þar sem spænsk stjórnvöld voru fordæmd fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir sýningu myndarinnar, þvílíkt guðlast og ósómi sem hún væri. Frankó óskaði þá eftir að fá að sjá myndina og eftir sýninguna skipaði hann að öll eintök af myndinni skyldu eyðilögð (reyndar segir Buñuel að skv. sínum heimildum hafi Frankó ekki séð neitt sem hægt væri að klippa út úr myndinni, en vildi samt ekki berjast á móti páfadómi). Sem betur fer hafði framleiðandinn tekið frumeintakið með sér til Parísar og var myndinni gefið mexíkóskt þjóðerni og var því hægt að dreifa henni vandræðalaust um heiminn. Nema á Spáni, að sjálfsögðu. Og Buñuel hélt aftur í útlegð.

Sjálfsagt er það þessi blanda af kynferðislegri þráhyggju og fetishisma og kirkjulegum ímyndum sem fór fyrir brjóstið á kaþólskum. Kristilegur kærleikur og skinhelgi fá auk þess á baukinn þar sem nunnan unga býður öllum betlurum og rónum bæjarins að búa hjá sér á setrinu, þar sem hún reynir að ala þau upp í guðsótta og góðum siðum og lætur þau biðja bænir og vinna á ökrunum. Í frægasta atriði myndarinnar blæs Viridiana til kvöldverðar á setrinu og betlararnir og rónarnir slá auðvitað upp partíi. Kvöldið endar með ósköpum og einn úr hópnum nauðgar Viridíönu. Í millitíðinni ná þau svo að snúa út úr síðustu kvöldmáltíðinni, og var það atriði víst ekki sísta hneykslunarhellan. Hér ákveður hópurinn að rétt sé að festa þetta andartak á mynd. "Með hvaða myndavél?" spyr einn róninn. "Með vél sem foreldrar mínir gáfu mér," segir konan sem tekur myndina og gerir það með því að lyfta pilsinu, við mikinn fögnuð viðstaddra. "Þetta er gamall brandari meðal spænskra barna," sagði Buñuel. "Ef einhver kom sér fyrir í þannig stöðu að afturendinn á honum yrði mjög áberandi hrópaði maður til hans: "Þú ert að taka mynd af mér!". Betlarakonan endurtekur þennan brandara, sem er saklaust krakkaspaug":Ég veit ekki hvort Jón Gnarr vissi af þessu atriði. En í þessu samhengi verður auglýsing símans óneitanlega áhugaverðari.

Viridiana í Guardian
Viridiana á Criterion

fimmtudagur, september 6

þriðjudagur, september 4

"Ég eeeelska Ugly Betty"...

...sagði 10 ára sonur minn upp úr eins manns hljóði einhvern tímann í vor. Þetta gladdi auðvitað mitt fölbleika hjarta, enda geta spædermanstarvorsbæonikúl-æði drengsins stundum gengið út í öfgar. Mér þykir líka ósköp vænt um Betu ljótu, en hins vegar eeeelska ég Mayu Arulpragasam:

sunnudagur, september 2

dadadadadada"In Italy, for thirty years under the Borgias, they had warfare, terror, murder, bloodshed, but they produced Michelangelo, Leonardo da Vinci and the Renaissance. In Switzerland, they had brotherly love; they had 500 years of democracy and peace -- and what did that produce? The cuckoo clock."

Og helvítis dadaismann, ha, Orson? ekki gleyma dadaistunum. Ég óska þess helst að hafa verið í Zürich vorið 1916. Þeir voru góðir, dadaistarnir, ha? Léttir á bárunni og svona, alltaf eitthvað að djóka og fíflast. Kannski ég skrifi örleikrit fyrir Hugleik með díalóg uppfullum af fónetískri merkingarleysu. Hver pant leikstýra? Ekki ég... Spign njegg klk bligg.

Deutshland Dada á Ubuweb.