mánudagur, febrúar 18

kaffihús í vesturbæinn


Mig langar í kaffihús í Vesturbænum. Og ég veit alveg hvar það á að vera. Í hvert sinn sem ég geng framhjá gamla Iðunnarhúsinu á Bræðraborgarstíg hugsa ég hvað það væri pottþéttur staður fyrir kaffihús. Stórir gluggar sem beinlínis orga á mann að setjast við sig og horfa út á mannlífið. Nú er þarna eitthvað útvegsfyrirtæki sem kallast Brim. Reyndar finnst mér að Bræðraborgarstígurinn gæti verið tilvalin gata fyrir sérverslanir og menningarstarfsemi, svona eitthvað í líkingu við Skólavörðustíginn. Það er svona smá vísir að þessu, postulínsbúðin skrýtna á horninu við Vesturgötu og bæði Bjartur og JPV eru með skrifstofur á næstu grösum. Það er eins og þetta svæði gleymist alltaf hjá borgaryfirvöldum (nema þegar hægt er að rífa hús til að byggja blokk).

5 ummæli:

Kristín sagði...

Ég hef oft spáð í þetta með kaffihúsin og Reykjavík, fer ósegjanlega í taugarnar á mér að það skuli frekar rísa sportbarir í úthverfunum heldur en lítil kaffihús sem væru ídeal á daginn fyrir fólkið sem er heima með lítil börn að hittast á og svo fyrir unga menntskælinga að flýja í á kvöldin. Svo er alltaf verið að tala í niðrandi tón um úthverfin sem svefnbæi, en hvað er Vesturbærinn þá?
Ég hitti reyndar fólk sem rak lítið kaffihús í Spönginni í Grafarvogi, hef þó ekki kíkt eftir því hvort það lifir.

Harpa J sagði...

Það er alveg satt, þetta hús væri alveg tilvalið fyrir kaffihús.

Arngrímur sagði...

Þegar ég bjó á Öldugötunni fékk ég nákvæmlega sömu hugmynd, og var minntur á hana sérhvern dag sem ég gekk framhjá Iðunnarhúsinu. Dag einn hafði pabbi svo fengið sömu hugmynd, þannig að hún er greinilega of góð til að minna ekki á sig.

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Við Árni erum einmitt með framtíðardrauma um að eignast bókabúð/kaffihús (sem er reyndar með síðasta náminu mínu líka að verða lítil bókaútgáfa) og þarna ertu auðvitað kominn með staðinn!

Þarft reyndar að bíða í svona 50 til 100 ár eftir að við höfum efni á og nennu til...

GummiE sagði...

Já, ég treysti á ykkur.