sunnudagur, september 28

Meinarðu Macbeth?

Ég er búinn að lofa sjálfum mér því að fara talsvert meira í leikhús í vetur en undanfarin ár. Eða réttara sagt, að fara ekki bara á áhugaleiksýningar heldur líka kíkja á hvað þessir atvinnumenn þykjast kunna. Og þar sem ég hugsa að skoska leikritið (eða það sem eftir stendur af því eftir að hópur ungra leikara hefur "rannsakað" verkið) verði eitt af því fyrsta sem ég sjái, þá er ekki úr vegi að rifja upp þessa tímalausu snilld:

mánudagur, september 15

I'm the son, and the heir...

Það er ansi skítt þegar maður áttar sig á því að barnið manns hefur náð að erfa manns verstu eiginleika. Heppinn. Ég hef nú blessunarlega náð að vaxa að mestu upp úr þessari félagsfötlun minni, og var svo sem ekkert alltaf létt, en það er samt ekkert á við það að horfa upp á son sinn glíma við svipaða hluti. Í fyrravetur gekk barnið í gegnum hreint helvíti í skólanum, hann var hunsaður af félögunum, gekk með veggjum og námið gekk illa. Grét sig í svefn ófá kvöld. Við foreldrar hans tókum samt á þessu og náðum aðeins að vinna á þessu með hjálp frá góðu fólki. Mamma hans var staðráðin í að flytja í annað hverfi til að drengurinn losnaði úr þessu, en hann vildi ekki flytja, fannst eitthvað spennandi við að fara í 7. bekk nú í haust og vera elstur í skólanum. Fyrstu vikurnar hafa reyndar gengið vel, hann er áhugasamur um námið og lærir heima af sjálfsdáðum (í fyrra var þetta sífellt stríð). En svo kem ég að honum uppi í rúmi á sunnudagskvöld þar sem hann situr daufur í dálkinn. Þegar ég geng á hann segist hann vera leiður yfir því að vera eins og hann væri, enginn léki við sig eða talaði við sig að fyrra bragði í skólanum, þegar hann reynir að tala við aðra er honum oft ekki ansað. Enginn biður hann að fyrra bragði um að leika eftir skóla, og þegar hann spyr aðra eru þeir alltaf að fara að leika við aðra. Og ef hann ákveður að fara samt með þá er honum leyft það en venjulega látið eins og hann sé ekki þarna. Og hann situr eftir og finnst hann misheppnaður, en skilur ekki alveg hvernig eða af hverju. Og ég á ósköp erfitt með að útskýra þetta fyrir honum, þrátt fyrir að hafa lent í ekki ósvipuðum aðstæðum. Eina sem ég get sagt af viti er að þetta muni batna með tímanum, þegar hann fer í unglingadeild eða í menntó og kynnist nýjum vinum. En það lagar ekki vandann sem er hér og nú. Og unglingsárin framundan. Úff.

Sem betur fer hefur aukist meðvitun um það í skólakerfinu að sum börn búi yfir minni félagsfærni en önnur og að þau þurfi þjálfun til að takast á við þetta og eignast vini. En það sem gleymist er að þau sem virðast búa yfir eðislægri félagsfærni og fara létt með þetta þurfa ekki síður á þjálfun að halda. Læra að taka tillit, gefa öðrum séns, passa að enginn sé útundan. Í stað þess að baða sig eingöngu í eigin vinsældum. Annars er þetta ókleifur veggur fyrir þá óframfærnu. En sjálfsagt er það of sósjalískur hugsunarháttur fyrir nútímasamfélagið. Kill or be killed.

Og mér líður eins og bölvuðum óþokka að vera að gefa syni mínum þetta í arf. Oh, well. Who said life was fair.