fimmtudagur, desember 4

Mikel Laboa (1934-2008)Ég ætlaði einhvern tímann fyrir löngu, þegar ég var ennþá að dunda mér við að setja hérna inn spænska tónlist, að skrifa færslu um Mikel Laboa. Þar sem karlinn tók upp á því að deyja um það leyti sem við íslendingar syrgðum fullveldið, fær hann loks þessa færslu til minningar. Það hefði líka verið ósvífni að setja Mikel Laboa undir hatt spænskrar tónlistar.

Mikel Laboa er Megas þeirra Baska. Eða Bob Dylan. Eða Jacques Brel. You get my drift. Það má kalla hann föður baskneskrar þjóðlagatónlistar (í nútímaskilningi þess orðs). Hann fæddist í Pasaia í Gipuzkoa-héraði 1934 og lést 1. desember síðastliðinn í Donostia (San Sebastian), 74 ára að aldri. Hann lærði til læknis og geðlæknis á 6. áratugnum og vann alla tíð bæði sem læknir og tónlistarmaður. Hann heillaðist sérstaklega af suður-amerískum tónlistarmönnum eins og Violetu Parra og leit alltaf á sig sem pólitískt söngvaskáld. Á þessum tíma ríkti einræðisstjórn Franco á Spáni sem var síst vinveitt böskum og baskneskri menningu. Notkun á basknesku var bönnuð opinberlega á þessum tíma og allt reynt til að halda sjálfstæðistilburðum fólks í skefjum. Mikel hafði mikinn áhuga á að viðhalda baskneskri menningu og tungu og stofnaði menningarhópinn Ez dok Amairu ("þrettán er ekki til") og innan þess hóps hóf hann að semja og spila tónlist ásamt Benito Lertxundi, öðrum frægum baskneskum vísnasöngvara, og teljast þeir upphafsmenn þeirrar stefnu sem kallast oft "nueva canción vasca".

Tónlist Mikel Laboa er hefðbundin þjóðlagatónlist með tilraunakenndum blæ, hann syngur ýmist þekktar þjóðvísur eða semur lög við nútímaljóð sem stundum eru samin sérstaklega fyrir hann. Hann gaf út fjölmargar plötur á ferlinum og sú sjötta, Bat-Hiru (einn þrír) sem kom út 1974, var fyrir nokkrum árum valin besta baskneska plata allra tíma í könnun dagblaðsins Diaro Vasco. Hér koma einmitt tvö dæmi af þeirri plötu. Það fyrra er gömul þjóðvísa og það síðara, öllu tilraunakenndara, er samið við ljóð eftir ljóðskáldið Joxean Artze þar sem skáldið túlkar á sinn hátt voðaverkin í Gernika 1937 og málverk Picasso sem fjallar um sama atburð. Bæði lögin eru eftir Mikel Laboa.

Mikel Laboa - Haika Mutil
Mikel Laboa - Gernika

Frægasta lag Laboa er þó Txoria Txori, sem er einnig að finna á Bat-Hiru. Txoria Txori er hluti af ljóði eftir áðurnefndan Joxean Artze. Ljóðið lýsir á myndrænan hátt tilfinningum baska til lands síns og þrá þeirra eftir frelsi og lítur fyrsta erindið (sem Laboa notar í lagi sínu) svona út.

Mikel Laboa - Txoria Txori

Hegoak ebaki banizkio
nerea izango zen,
ez zuen aldegingo.
Bainan, honela
ez zen gehiago txoria izango
eta nik...
txoria nuen maite

Ef ég klippti af honum vængina
væri hann minn
og flygi aldrei burt.
En þá væri hann ekki lengur fugl
og það var fuglinn sem ég unni.


Og hér má heyra skáldið sjálft flytja ljóðið, ásamt fleiri ljóðum:Lagið varð fljótlega eins konar einkennislag baskneskra sjálfstæðissinna og þykir lýsa ágætlega samskiptum baska við herraþjóðina, spánverja (þar sem fuglinn er tákn Baskalands sem Spánn reynir að klippa vængina af) og hvert mannsbarn í Baskalandi ku víst kunna lagið. Til að gefa einhverja hugmynd um hversu mikilvægt lagið er böskum eru hérna tvö dæmi. Það fyrra er tekið upp á ónefndri knæpu í ónefndum bæ í Baskalandi, og það seinna er frá því þegar Joan Baez flutti lagið á tónleikum í Bilbao:Engin ummæli: