sunnudagur, desember 14

ættfræði og geni.com

Alltaf þegar pabbi byrjar að þusa um skyldmenni okkar og ættir fell ég í mók. Ég hef bara aldrei getað munað nokkurn skapaðan hlut um skyldleika og ættartengsl og á ættarmótum á ég alltaf í bölvuðum vandræðum með að muna hvernig fólk er skylt mér og hver er undan hverjum. En svo uppgötvaði ég þessa snilldarheimasíðu um daginn, Geni, þar sem maður getur dundað sér við að búa til ættartré. Og nú er ég alveg húkkt og búinn að hanga á Geni og Íslendingabók nokkurn veginn stanslaust undanfarna daga. Og farinn að átta mig betur á því hvernig þetta pakk allt saman er skylt mér.

Fór því að gúgglgramsa og fann þessa bráðskemmtilegu mynd af afa og ömmu í fermingarveislu sonar Jóhannesar úr Kötlum. Afi stendur í dyragættinni og heldur á dóttur Kristmanns Guðmundssonar, Kristmann heldur svo utan um ömmu mína lengst til hægri á myndinni. Gaman að þessu.

5 ummæli:

Grímsi sagði...

Rakti okkur saman í einum grænum í Íslb. Við gætum ekki verið fjarskyldari (í 8. og 9.). Hinsvegar segir um einn ættföður okkar: "Allt sem viðkemur honum og hans afkomendum er eitthvað ruglað, og jafnvel er vafasamt að hann hafi verið til." Það var nú eiginlega ekki bætandi á tilvistarkreppuna hjá manni!

Gummi Erlings sagði...

Er þá tilvist okkar öll á misskilningi byggð? Þetta var nú ekki til að bæta jólaskapið, maður.

Annars virðist mér almennt takast að velja mér mjög fjarskylda vini, ég held að sjötti liður sé svona mesti skyldleikinn.

Kristín sagði...

Ég kannast við þetta með að muna ekki ættartengsl.
Komst ómögulega út í kvöld, sjáumst vonandi betur en þarna á laugardag.

Hildur Lilliendahl sagði...

Ertu svolítið orðinn fertugur? Eða er ættfræðiáhuginn sumum bara í blóð borinn?

Gummi Erlings sagði...

Já, ætli þetta fylgi ekki bara aldrinum. Reyndar hef ég þá afsökun að mér var fengið það verkefni fyrir ættarmót næsta sumar að finna svona ættartrésforrit.

Annars er ég, í ljósi sögunnar, farinn að hafa áhyggjur af því að það sé kannski ekkert að marka þetta ættartré fyrst Kristmann Guðmundsson heldur svona innilega utan um ömmu mína á myndinni.