mánudagur, nóvember 9

skemmdarverk

gefnu tilefni er hér smá tónlistarlegt skemmdarverk, gamalt og nýtt í bland:

Skemmdarverk (AKA Drepum tónlistina!)

Lagalistinn:

Tangerine Dream - Sequent C'
Kraftwerk - Trans Europe Express
Boards of Canada - Hi Scores
Orchestral Manouvers in the Dark - Almost
Vangelis - Blade Runner (End Title)
M83 - Slowly
Human League - Love Action (I Believe In Love)
Giorgio Moroder - Utopia
Chromeo - Fancy Footwork
Donna Summer - I Feel Love
HEALTH - Crimewave [Crystal Castles Vs. HEALTH]
Ellen Allien and Apparat - Rotary
Visage - Fade to Grey
Vangelis - Tears in Rain

fimmtudagur, september 3

Karlar sem hata konur

Jæja, náði að sjá kvikmyndina í gær og er þá bæði búinn að lesa bókina og horfa á myndina.

Svona á heildina litið varð ég frekar fyrir vonbrigðum með myndina en hitt. Hugsanlega stafar það af því að margir í kringum mig voru mjög hrifnir af myndinni og ég hef því kannski búist við meiru þess vegna. En ekki eingöngu. Sannleikurinn er sá að þetta er bara ekkert mikil bíómynd. Sjónrænt og stíllega séð hafði hún ekkert til að bera umfram meðal Wallander-þátt. Fín sjónvarpsmynd, semsagt, en ekki mikil kvikmynd. Þetta er ágætlega heppnuð myndskreyting á bókinni en ekki mikið meira en það. Hér eru nokkrir punktar (vindskeiðar ("spoilers") galore):

Það góða:
 • Noomi Rapace. Lisbeth Salander er tvímælalaust mest heillandi persónan í bókinni og til að myndin gæti gengið upp þurfti að finna réttu leikkonuna í hlutverkið. Það heppnaðist eiginlega fullkomlega. Eftir að hafa séð myndina er ekki hægt að sjá Lisbeth fyrir sér neitt öðruvísi.
 • Michael Nyqvist. Blomkvist er mun sympatískari í myndinni en í bókinni (minni kvennabósi, enda var þetta fullmikið af því góða). Samband þeirra Lisbeths var trúverðugt, sem var nauðsynlegt til að myndin gengi upp, og samspil þeirra tveggja var tvímælalaust það besta við myndina.
 • Það tókst að koma sögunni til skila. Merkilega óbrenglaðri. Í raun talsvert afrek, þar sem mikið af upplýsingum kemur fram í bókinni. En það var líka á kostnað annars.

Það slæma:
 • Þar sem lögð er svo mikil áhersla að koma upplýsingum til skila næst aldrei að skapa nauðsynlegt andrúmsloft í myndinni. T.d. fær maður aldrei neina tilfinningu fyrir eyjunni og samfélaginu þar, þorpið birtist varla nema rétt í svip og það næst aldrei að skapa almennilega þetta andrúmsloft falins óhugnaðar sem smátt og smátt kemur upp á yfirborðið.
 • Tónlistin pirraði mig stundum (sem er þó líklega smekksatriði). Hún í samspili við stílbrögðin, sérstaklega þegar reynt var að koma miklu magni upplýsinga til skila á mjög stuttum tíma með hraðri klippingu, örstuttum myndbrotum og dramatískum trommuheilatakti, gerði myndina enn sjónvarpslegri.
 • Myndatakan var kannski ekki slæm, en mér fannst hún heldur ekki bæta neinu við. Lýsingin var of hörð og, já, svolítið sjónvarpsleg.
 • Sviðsetningin var stundum hálfkauðsk, t.d. í lokin þegar Mikael og Harriet hitta Harald og Agötukristí-atriðið með hele familjen var einkar hallærislegt. Reyndar missti myndin alltaf svolítið dampinn þegar Mikael og Lisbeth voru ekki saman á skjánum.
 • Innbrotið. Sorrí, ég veit það þarf að koma sögunni til skila og stytta sér leið, en það var fullkomlega ótrúverðugt að Mikael myndi brjótast inn í hús sem einhver býr í með því að brjóta glugga. Skemmdi í það minnsta fyrir mér.
 • Martin. Það er eiginlega ekki bara vandamál í myndinni, heldur bókinni líka, að í jafn vel skrifuðum og skemmtilegum reyfara skuli illmennið vera svona einhliða og klisjukennt, sem verður enn meira áberandi þegar hann er borinn saman við persónu Lisbeth. En þetta var stærra vandamál í myndinni, því í bókinni fékk lesandinn þó aðeins betra færi á að kynnast Martin sem fyrirmyndarforstjóra og með þeim skárri í fjölskyldunni. Hann fékk frekar lítið pláss í myndinni.
 • Og svo algjör smámunasemi í lokin: Lisbeth á ekki biblíu og hefur aldrei lesið biblíuna. En ég skil svo sem af hverju dóttir Mikaels var tekin út.
Ég skemmti mér samt ágætlega og þetta er fín afþreying. En það er samt engin sérstök ástæða til að sjá hana í bíó, virkar alveg jafnvel heima í stofu.

Og, já, talandi um samanburð á Allison úr Breakfast Club og Lisbeth Salander, þá fær Lisbeth líka meikóver í lokin eins og Allison. Tilviljun?

miðvikudagur, ágúst 26

Karlar sem hata Breakfast Club

Náði loks að lesa Karla sem hata konur, þannig að ég er viðræðuhæfur. Fín bók, bara. Einhvern veginn fékk ég á tilfinninguna að Stig Larson hefði hrifist af Breakfast Club (eða í það minnsta verið skotinn í Allison). Kannski er það bara ég, kannski heldur margur mig sig, eða ég hann mig, eða svoleiðis.

Og talandi um Breakfast Club, þá var þetta mómentið sem gjörsamlega eyðilagði annars góða mynd:

mánudagur, ágúst 3

sjálfsflekkunarfreistingin

„Sumir drengir, eins og þeir sem byrja að reykja, halda, að það sé mjög fínt og karlmannlegt að segja eða hlusta á óþverrasögur, en það sýnir einungis, að þeir eru hálfgerð flón.

En slíkt tal, lestur klúrra bóka og dónalegar myndir verða þess oft valdandi, að andvaralaus drengur fellur fyrir sjálfsflekkunarfreistingunni. En slíkt getur verið mjög hættulegt fyrir hann, því að hún veiklar hann bæði andlega og líkamlega, ef hún kemst upp í vana.

En ef nokkur karlmennskubragur er í þér, bíðurðu freistingunni byrginn þegar í stað. Þú hættir að líta í klúru bækurnar og hlusta á sögurnar, en festir hugann við eitthvað annað.

Oft stafar þessi fýsn af slæmri meltingu eða of mikilli og góðri fæðu, hægðateppu eða hún orsakast af því, að sofið er í of heitu rúmi með of mörgum ábreiðum. Það er þá hægt að lækna þetta með breyttum rúmbúnaði, köldu baði, sem tekið er tafarlaust, eða með leikfimisæfingum, armæfingum ýmiss konar, hnefaleik, o.s.fr.

Það kann að reynast erfitt að standast freistinguna í fyrsta skipti, en er þér hefur tekizt það einu sinni, gengur það betur eftirleiðis.

Ef þú verður æ ofan í æ fyrir óþægindum af þessum sökum, skaltu ekki leyna því, heldur fara til föður þíns eða skátaforingjans og ræða málið, og verður þá öllu kippt í lag.“

Baden Powell, Skátahreyfingin.

sjálfstjórn indjána

Aukið sjálfstæði indjánaætta

Þessi ákvörðun er ekki alveg fordæmislaus (eða, jú, kannski strangt til tekið, þar sem Panama telst væntanlega til Mið-Ameríku). Kuna-fólkið í Panama hafa haft sjálfstjórn frá 1925, og frumbyggjar í Mið- og Suður-Ameríku líta oft til þeirra í baráttu sinni fyrir meira sjálfstæði.

fimmtudagur, júlí 30

yuna

Þetta finnst mér best við hið svokallaða Lýðnet: Að geta uppgötvað stúlku í Malasíu sem gengur með skuplu og syngur dægurlag um gamla kærasta. Í sól og hita. Svona sumarlag. Allt í einu langar mig alveg rosalega í mangó.

föstudagur, júlí 24

the uses of disorder

"At a deeper level Richard Sennett has written a book, The Uses of Disorder [...]. Several different threads of thought are woven together in Sennett's study of "personal identity and city life". The first is a notion that he drives from the psychologist Erik Erikson that in adolescence men seek a purified identity to escape from uncertainty and pain and that true adulthood is found in the acceptance of diversity and disorder. The second is that modern American society freezes men in the adolescent posture — a gross simplification of urban life in which, when rich enough, people escape from the complexity of the city, with it's problems of cultural diversity and income disparity, to private family circles of security in the suburbs — the purified community. The third is that city planning as it has been conceived in the past - with techniques like zoning and the elimination of 'non-conforming users' — has abetted this process, especially by projecting trends into the future as a basis for present energy and expenditure."
Colin Ward. "Who's to Plan". Anarchy in Action.

fimmtudagur, júní 18

Hæ hó jibbíjei og jibbíkæjei, moððerfokker

Þjóðhátíðardagurinn var tiltölulega óhefðbundinn, en innan hefðbundinna marka þó. Fékk mér rölt um miðjan dag niður í bæ ásamt syni og barnsmóður, drakk kaffi og borðaði súkkulaðitertu á Q-bar, skoðaði fornbíla sem ekki mátti snerta og las anarkistaspeki á bleðli frá krökkunum sem "frömdu hústöku" í íbúðinni sem ég gisti í á Patró um hvítasunnuna. Um kvöldið hlustaði ég og horfði á frænda minn blóta dauðarokksguðinum á Arnarhóli. Bara gaman, sko.

Og ég vildi að ég kynni japönsku...P.S. Ég held að við getum leyst öll okkar vandamál með því að breyta nafninu á landinu úr "Íslandi" í "Aisurando".

fimmtudagur, apríl 9

Memoria del saqueo

Þetta er heimildamynd eftir Fernando Solanas, Memoria del saqueo, sem fjallar um hrunið í Argentínu 2001. Fyrir utan það að þetta er mjög góð mynd, kallast hún ágætlega á við atburði undanfarinna ára á Íslandi. Myndin er hér fyrir neðn í tólf hlutum:mánudagur, mars 30

sirkassíska

Svona vegna þess að það barst í tal í kvöld:

Sirkassíska er tungumál (eða hópur mála) sem talað er í Kákasus-fjöllum. Það er að grunni til ergatíft tungumál, eins og títt er um mál í Kákasus. Georgíska og téténska eru líka ergatíf. Og reyndar baskneska líka. Fræðimenn hafa reyndar gert því í skóna að þetta bendi til þess að ergatíf tungumál hafi verið normið í gömlu Evrópu fyrir daga indóevrópsku innrásarinnar. Hlutfall þolfallstungumála (eins og íslensku) er nefnilega óvenju hátt í Evrópu og helgast af því að Indóevrópskir þjóðflokkar flæddu yfir heimsálfuna og drekktu þeim málum sem fyrir voru. Baskneska og Kákasusmálin eru því leyfar frá fyrri tíma, að talið er.

Ergatíf mál og þolfallsmál eru í raun andstæður hvað formgerð varðar. Í þolfallsmálum, eins og íslensku, er þolandinn í setningu með áhrifssögn (sögn sem felur í sér aðgerð og kallar á andlag) sértækt fall en frumlagið er eins, hvort sem sögnin er áhrifssögn (frumlagið er gerandi) eða áhrifslaus, en í ergatífum málum er gerandinn með áhrifssögn sértækt fall en áhrifslaus gerandi og þolandi eru með sama fall (ég er búinn að gleyma allri málfræði og nota ekkert endilega rétt hugtök, ef ske kynni að þið séuð mjög endaþerminn á málvísindasviðinu). Dæmi úr íslensku um þolfallsmál:

Hundurinn gelti
(áhrifslaus sögn, ekkert andlag)
Maðurinn barði hundinn
(áhrifssögn, þolandinn (hundurinn) tekur á sig sértækt fall)

Dæmi um ergatíft mál (baskneska):
Gizona hil da
("maðurinn dó", áhrifslaus sögn ("hil da"))
Gizonak txakurra hil du
("maðurinn drap hundinn", áhrifssögn ("hil du"), gerandinn (frumlagið) tekur á sig sértækt, ergatíft fall)

En hvað um það. Það sem er merkilegt við Sirkassísk mál er hljóðkerfið, sem þykir með þeim flóknari sem til eru. Hér er t.d. ágæt lýsing. Og hérna er hljóðdæmi. Ég hef ekki hugmynd út á hvað það gengur en sjálfsagt er þetta mjög merkilegt.(Annað dæmi, mjög dramatískt)

laugardagur, mars 14

Jon Stewart vs. CNBC

Það er þess virði að plægja í gegnum öll myndskeiðin hér fyrir neðan. Jon Stewart, stjórnandi The Daily Show á Comedy Central hefur orð á sér fyrir að vera einn klárasti og gagnrýnasti þáttastjórnandi í bandarísku sjónvarpi. Og hann stjórnar grínþætti. Þessi syrpa er gott dæmi um þetta.

Fyrir rúmri viku gerði Stewart stólpagrín að sjónvarpsstöðinni CNBC og viðskiptaumfjöllun þeirra og gaf nokkur sýnishorn sem bentu til þess að CNBC hefðu hagað sér eins og klappstýrur bankastjóranna og viðskiptamógúlanna (sounds familiar?). Sérstaklega fengu tveir þáttastjórnendur á baukinn, Steve Santelli og Jim Cramer:Cramer var ekki sáttur og fékk að bauna til baka í þætti hjá Joe Scarborough:Stewart svaraði um hæl:Cramer birtist á Today Show og fékk að segja aðeins meira (takið eftir svipnum á honum þegar hann heldur að Stewart ætli að biðjast afsökunar):Stewart varð auðvitað að eiga síðasta orðið:Jim Cramer hætti sér að lokum í þáttinn hjá John Stewart og var bókstaflega slátrað. Maður vorkennir manninum eiginlega að þurfa að ganga í gegnum þetta, en að þessu sinni sleppir Stewart öllu gríni og baunar á hann þar til ekkert stendur eftir. En hér er viðtalið, óklippt og óskorið. Það er fyllilega þess virði að horfa á það allt og fá masterclass í viðtalstækni:

1. hluti:


2. hluti:


3. hluti:

þriðjudagur, mars 3

nöldurblogg

Enron myndin var mjög góð og alveg rosalega tímabær og allt það, en svakalega var hún illa þýdd.

mánudagur, febrúar 23

að gefnu tilefni

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei fattað vatnsdeig sem fyrirbæri. Bragðlaust og loftkennt. Eins og að borða kreppappír.

miðvikudagur, febrúar 18

Land og fólk

Landið má viljugt þola vetur;
fólk klæðir af sér frost
en á hvergi skjól fyrir skrumi.

Þegar dagur rís í austri
hlæja hlíð og skriða
ljósið bræðir þela úr lýngmó og skóf
og fólk hristir af sér hrím blekkínganna.

Þó býr landið yfir leyndum harmi
og einstaka maður við örkuml.

(Þorsteinn frá Hamri)


fimmtudagur, febrúar 12

ábyrgð eða sök

"Geir sagði að það væri hlutverk sérstaks saksóknara að finna út hvar ábyrgðin liggur."

Merkileg þessi árátta að rugla viljandi saman merkingu orðanna "sök" og "ábyrgð". Hlutverk saksóknarans er að finna út hvar sökin liggur, ábyrgðin er svolítið annar hlutur. Að fjölmiðlafólk skuli ekki átta sig á þessu og stilla pólitíkusum eins og Geir upp við vegg er óskiljanlegt.

(biðst afsökunar á þessum pósti. skal aldrei aftur tala um pólitík, kreppuna eða bara almennt moggabloggast meir. stóðst það bara ekki núna).

sunnudagur, febrúar 8

vildarpunktar í amasóníu

Vinur minn benti mér á síðuna points.com, þar sem maður getur breytt vildarpunktunum sínum hjá Icelandair í gjafabréf hjá Amazon. Tékkaði á þessu í kvöld og viti menn, nú á ég bara 7 vildarpunkta eftir hjá Icelandair, en í staðinn á ég rúmlega 200 dollara gjafabréf í Amazon (tja, mínus þessar fjórar bækur sem ég var að panta...). Gott kreppuráð fyrir bókabéusa eins og mig.

klifur

Eitt af því sem ég ákvað að taka til bragðs þetta árið var að finna mér einhverja hreyfingu. Af því ég er letihaugur og veit ekkert betra en að liggja upp í sófa og lesa bók eða horfa á bíó, sem er ekki beint hollt til lengdar. Nýja hreyfingin varð að sameina það að vera skemmtileg og þeirrar gerðar að sonur minn 12 ára gæti stundað hana með mér (hann fékk letihaugagenið í arf frá mér). Hann hatar allt sem heitir hóp- eða keppnisíþróttir og mér leiðist hefðbundin líkamsrækt. Lausnin var auðvitað klifur. Við erum því komnir með þriggja mánaða kort í Klifurhúsinu og mætum þar tvisvar í viku og prílum upp veggi. Þetta er ógeðslega skemmtilegt, en kannski ekkert sérstaklega auðvelt að vélrita daginn eftir æfingu. Ég hlussast ennþá upp auðveldustu leiðirnar en þetta fer samt skánandi. Held ég verði samt aldrei svona góður:

fimmtudagur, janúar 29

stjörnuspáÉg viðurkenni einn veikleika. Ég er veikur fyrir stjörnuspám. Ég held ég trúi ekkert sérstaklega á þær, enda ég skynsamur maður og þær vísindalega óhugsandi og yadda yadda yadda. Það er samt eitthvað skemmtilegt við þær. Að því sögðu kemur að máli dagsins. Í einhverju fikti fyrir jól lenti ég á síðunni Astro.com. Þar er hægt að fá einhverja framtíðarspá fyrir núllkall og ég ákvað að láta undan þeirri freistingu. Spáin í heild sinni var bara ágætlega uppörvandi, sem er síst verra, enda gerir maður þær einu kröfur til spákalla og -kvenna að þau lofi manni stuði í framtíðinni. En í spánni leyndist samt þessi kafli hér. Þegar ég las þetta aftur um daginn (líklega nýkominn heim með sigg á fingrum eftir mótmæli með pottaglamri) var ekki laust við að mér fyndist nokkuð til spádómsgáfu þeirra koma. Tilviljun? Örugglega, en óneitanlega skemmtileg tilviljun.
Pluto square Uranus: An agent for change

Mid January 2009 until mid November 2010: This influence signifies a period of change and even upheaval in your life. But the changes will probably originate, not within your personal sphere, but in larger pressures from society as a whole. Under this influence many individuals feel that little happens in their personal lives but that the changes in the world around them are phenomenal.

The major challenge you will have to face during this period is learning to adapt to changes in the world around you. Rigidity will only make the situation worse, because it is unlikely that you can successfully resist the pressures for change. In fact, in certain circumstances, you yourself may become an agent for change. If you feel that circumstances have limited you severely, you will probably be attracted to persons and movements that set themselves up as agents of a new order. This may be on a grand political and social scale, or it may be on the much smaller scale of an individual who comes into your life and shows you how to change. Actually, this can be quite a liberating influence, because you are inclined to look toward the future for your strength rather than to the past, so you will probably be able to flow with the changes.

One problem to watch out for is the possibility that you may throw out everything, not just that which needs change. This influence tends to make you overdo revolution, meaning not just social revolution but fundamental changes in your own life that are somewhat unexpected in terms of your past. Try to distinguish what elements of the past have been good and what have not - do not arbitrarily destroy both.

A second warning is that this influence is fanatical in nature and not heedful of human feelings and emotions. Do not lose track of feelings in making or experiencing sweeping changes. And because this influence speaks in large social terms, do not lose track of the quality of individuals now. Larger social forces may be behind everything you do or that happens to you, but ultimately those forces are composed of individuals whom you have to deal with as such, not as representatives of some abstraction.

þriðjudagur, janúar 27

villta vinstrið

Jæja, vinstristjórn. Ekki veit það á gott. Áður en maður veit af verður efnahagskerfið hrunið, óðaverðbólga og ofurvextir og meira atvinnuleysi en sést hefur í háa herrans tíð. Ég get sagt ykkur að þetta endar með óeirðum á götum úti!

Hei, bíddu...

mánudagur, janúar 26

bölvaðar skræfur

„Allir Norðlendingar ok Sunnlendingar váru skírðir í Reykjalaugu í Laugardal, er þeir riðu af þingi, því þeir vildu eigi fara í kalt vatn.“
(úr Kristni sögu)

Leoncie

Þegar Leoncie ofbauð og yfirgaf Ísland byrjaði allt að fara til fjandans.

laugardagur, janúar 17

To be modern is to find ourselves in an environment that promises us adventure, power, joy, growth, transformation of ourselves and the world--and at the same time that threatens to destroy everything we have, everything we know, everything we are.

--Marshall Berman, All That is Solid Melts Into Air

þriðjudagur, janúar 13

Robert Wade og Crash Course

Mér sýnist að merkilegasta framlag mitt til byltingarinnar hingað til sé að hafa snarað ræðu Roberts Wade yfir á ástkæra ylhýra. Wade er skemmtilegur kall, kíminn séntilmaður sem laumar út úr sér lúmskum háðsyrðum eins og séntilmanna er siður. Lesið ræðuna alla, hún er þess virði.

Svo mæli ég eindregið með "Crash Course" Chris Martensens. Það sem hann segir rímar ágætlega við orð Wades (þetta er langt, en þess virði).

þriðjudagur, janúar 6

OPINN BORGARAFUNDUR #7

Í Iðnó, fimmtudaginn 8. janúar kl 20-22.


Fundarefni: Mótmæli (ólík viðhorf, ólíkar aðferðir, sömu markmið?), aðferðafræði mótmæla og borgaraleg óhlýðni.

Frummælendur

 • Hörður Torfason – Raddir fólksins
 • Eva Hauksdóttir – Aðgerðasinni
 • NN anarkisti
 • Stefán Eiríksson – Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins

Auk þeirra munu Katrín Oddsdóttir, laganemi og talsmaður Neyðarstjórnar Kvenna, Sigurlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Nýrra tíma og Þórhallur Heimisson, prestur, taka þátt í pallborðsumræðum ásamt fleirum og svara spurningum viðstaddra.

Þá hefur Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra sérstaklega verið boðin þátttaka í pallborðsumræðunum.

Hvetjum ríkisstjórn Íslands og alla alþingismenn til að mæta á svæðið, hlusta á sína kjósendur og vera með í umræðunni. Hvetjum ennfremur alla fjölmiðlamenn og konur til að mæta og taka þátt.

Fyrirkomulag

Fundarform verður með sama sniði og áður, þegar frummælendur hafa lokið máli sínu er orðið gefið laust og fundargestir úr sal fá að tjá sig eða spyrja þátttakendur í pallborði spurninga. Hver aðili hefur tvær mínútur til að tjá sig svo gott er að vera vel undirbúinn.

Við hvetjum fundargesti til þess að mæta tímanlega vegna takmarkaðs húsrýmis.

Sýnum borgaralega virkni og fjölmennum á fundinn. Spyrjum, hlustum og fræðumst.
Vinsamlegast áframsendið póstinn.

f.h. undirbúningsnefndar
Guðný Þorsteinsdóttir