mánudagur, febrúar 23

að gefnu tilefni

Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei fattað vatnsdeig sem fyrirbæri. Bragðlaust og loftkennt. Eins og að borða kreppappír.

miðvikudagur, febrúar 18

Land og fólk

Landið má viljugt þola vetur;
fólk klæðir af sér frost
en á hvergi skjól fyrir skrumi.

Þegar dagur rís í austri
hlæja hlíð og skriða
ljósið bræðir þela úr lýngmó og skóf
og fólk hristir af sér hrím blekkínganna.

Þó býr landið yfir leyndum harmi
og einstaka maður við örkuml.

(Þorsteinn frá Hamri)


fimmtudagur, febrúar 12

ábyrgð eða sök

"Geir sagði að það væri hlutverk sérstaks saksóknara að finna út hvar ábyrgðin liggur."

Merkileg þessi árátta að rugla viljandi saman merkingu orðanna "sök" og "ábyrgð". Hlutverk saksóknarans er að finna út hvar sökin liggur, ábyrgðin er svolítið annar hlutur. Að fjölmiðlafólk skuli ekki átta sig á þessu og stilla pólitíkusum eins og Geir upp við vegg er óskiljanlegt.

(biðst afsökunar á þessum pósti. skal aldrei aftur tala um pólitík, kreppuna eða bara almennt moggabloggast meir. stóðst það bara ekki núna).

sunnudagur, febrúar 8

vildarpunktar í amasóníu

Vinur minn benti mér á síðuna points.com, þar sem maður getur breytt vildarpunktunum sínum hjá Icelandair í gjafabréf hjá Amazon. Tékkaði á þessu í kvöld og viti menn, nú á ég bara 7 vildarpunkta eftir hjá Icelandair, en í staðinn á ég rúmlega 200 dollara gjafabréf í Amazon (tja, mínus þessar fjórar bækur sem ég var að panta...). Gott kreppuráð fyrir bókabéusa eins og mig.

klifur

Eitt af því sem ég ákvað að taka til bragðs þetta árið var að finna mér einhverja hreyfingu. Af því ég er letihaugur og veit ekkert betra en að liggja upp í sófa og lesa bók eða horfa á bíó, sem er ekki beint hollt til lengdar. Nýja hreyfingin varð að sameina það að vera skemmtileg og þeirrar gerðar að sonur minn 12 ára gæti stundað hana með mér (hann fékk letihaugagenið í arf frá mér). Hann hatar allt sem heitir hóp- eða keppnisíþróttir og mér leiðist hefðbundin líkamsrækt. Lausnin var auðvitað klifur. Við erum því komnir með þriggja mánaða kort í Klifurhúsinu og mætum þar tvisvar í viku og prílum upp veggi. Þetta er ógeðslega skemmtilegt, en kannski ekkert sérstaklega auðvelt að vélrita daginn eftir æfingu. Ég hlussast ennþá upp auðveldustu leiðirnar en þetta fer samt skánandi. Held ég verði samt aldrei svona góður: