fimmtudagur, september 3

Karlar sem hata konur

Jæja, náði að sjá kvikmyndina í gær og er þá bæði búinn að lesa bókina og horfa á myndina.

Svona á heildina litið varð ég frekar fyrir vonbrigðum með myndina en hitt. Hugsanlega stafar það af því að margir í kringum mig voru mjög hrifnir af myndinni og ég hef því kannski búist við meiru þess vegna. En ekki eingöngu. Sannleikurinn er sá að þetta er bara ekkert mikil bíómynd. Sjónrænt og stíllega séð hafði hún ekkert til að bera umfram meðal Wallander-þátt. Fín sjónvarpsmynd, semsagt, en ekki mikil kvikmynd. Þetta er ágætlega heppnuð myndskreyting á bókinni en ekki mikið meira en það. Hér eru nokkrir punktar (vindskeiðar ("spoilers") galore):

Það góða:
  • Noomi Rapace. Lisbeth Salander er tvímælalaust mest heillandi persónan í bókinni og til að myndin gæti gengið upp þurfti að finna réttu leikkonuna í hlutverkið. Það heppnaðist eiginlega fullkomlega. Eftir að hafa séð myndina er ekki hægt að sjá Lisbeth fyrir sér neitt öðruvísi.
  • Michael Nyqvist. Blomkvist er mun sympatískari í myndinni en í bókinni (minni kvennabósi, enda var þetta fullmikið af því góða). Samband þeirra Lisbeths var trúverðugt, sem var nauðsynlegt til að myndin gengi upp, og samspil þeirra tveggja var tvímælalaust það besta við myndina.
  • Það tókst að koma sögunni til skila. Merkilega óbrenglaðri. Í raun talsvert afrek, þar sem mikið af upplýsingum kemur fram í bókinni. En það var líka á kostnað annars.

Það slæma:
  • Þar sem lögð er svo mikil áhersla að koma upplýsingum til skila næst aldrei að skapa nauðsynlegt andrúmsloft í myndinni. T.d. fær maður aldrei neina tilfinningu fyrir eyjunni og samfélaginu þar, þorpið birtist varla nema rétt í svip og það næst aldrei að skapa almennilega þetta andrúmsloft falins óhugnaðar sem smátt og smátt kemur upp á yfirborðið.
  • Tónlistin pirraði mig stundum (sem er þó líklega smekksatriði). Hún í samspili við stílbrögðin, sérstaklega þegar reynt var að koma miklu magni upplýsinga til skila á mjög stuttum tíma með hraðri klippingu, örstuttum myndbrotum og dramatískum trommuheilatakti, gerði myndina enn sjónvarpslegri.
  • Myndatakan var kannski ekki slæm, en mér fannst hún heldur ekki bæta neinu við. Lýsingin var of hörð og, já, svolítið sjónvarpsleg.
  • Sviðsetningin var stundum hálfkauðsk, t.d. í lokin þegar Mikael og Harriet hitta Harald og Agötukristí-atriðið með hele familjen var einkar hallærislegt. Reyndar missti myndin alltaf svolítið dampinn þegar Mikael og Lisbeth voru ekki saman á skjánum.
  • Innbrotið. Sorrí, ég veit það þarf að koma sögunni til skila og stytta sér leið, en það var fullkomlega ótrúverðugt að Mikael myndi brjótast inn í hús sem einhver býr í með því að brjóta glugga. Skemmdi í það minnsta fyrir mér.
  • Martin. Það er eiginlega ekki bara vandamál í myndinni, heldur bókinni líka, að í jafn vel skrifuðum og skemmtilegum reyfara skuli illmennið vera svona einhliða og klisjukennt, sem verður enn meira áberandi þegar hann er borinn saman við persónu Lisbeth. En þetta var stærra vandamál í myndinni, því í bókinni fékk lesandinn þó aðeins betra færi á að kynnast Martin sem fyrirmyndarforstjóra og með þeim skárri í fjölskyldunni. Hann fékk frekar lítið pláss í myndinni.
  • Og svo algjör smámunasemi í lokin: Lisbeth á ekki biblíu og hefur aldrei lesið biblíuna. En ég skil svo sem af hverju dóttir Mikaels var tekin út.
Ég skemmti mér samt ágætlega og þetta er fín afþreying. En það er samt engin sérstök ástæða til að sjá hana í bíó, virkar alveg jafnvel heima í stofu.

Og, já, talandi um samanburð á Allison úr Breakfast Club og Lisbeth Salander, þá fær Lisbeth líka meikóver í lokin eins og Allison. Tilviljun?

3 ummæli:

spritti sagði...

Sé að þú hefur pælt nokkuð í þessu og er nokkurnvegin sammála þér. Mér þótti myndin samsvara bókinni nokkuð jahh... sæmilega. Enda þegar ég sá myndina, var ég ekki búinn að heyra mikið um eitthvað "FRÁBÆRT" í sambandi við hana. Bara að hún væri góð.

Varríus sagði...

Að mörgu leyti sammála, þó aðfinnsluatriðin þín hafi eiginlega ekkert spillt fyrir mér. En ég er heldur ekki bíópælari, sest bara niður með poppið og krefst þess að það sé haft ofan af fyrir mér.

Það sem pirraði mig mest (sem var þó lítið, reyndar) var að Peter Haber skyldi hafa verið settur í hlutverk Martin Wangers. Vil ekki að inspektor Beck sé að dútla við að vera Pantomime Villain í frístundum.

Já, og ég næ ekki þessari Breakfastclub-pælingu. Eða þykir hún kannski of "bíósentrísk".

Gummi Erlings sagði...

Tja, mér fannst Breakfastclub-pælingin bara fyndin, út af færslunni á undan. Þær eru nú óneitanlega andlega skyldar, Lisbeth og Allison.