fimmtudagur, október 21

Af trúboðiÞað er mikið talað um ályktun Mannréttindaráð Reykjavíkur um samskipti kirkju og skóla. Sem trúleysingi er ég alveg sammála því að skólar eiga ekki að vera vettvangur trúboðs, og í sjálfu sér er þessi ályktun skref í rétta átt. En samt... það er eitthvað sem truflar mig við þetta. Og eftir að hafa hugsað málið aðeins og lesið hinar og þessar umræður um þetta (sem eru óneitanlega misgáfulegar, svo ekki sé meira sagt) er ég eiginlega á því að það eigi þvert á móti að fara lengra í hina áttina. Let me explain...

Ég er trúleysingi, en ólíkt t.d. Vantrúarmönnum lít ég ekki á mitt trúleysi sem eitthvað aktívt ástand. Ég bara trúi ekki og er nokk sama hvað aðrir gera. Ég á líka dreng á unglingsaldri sem er nýfermdur. Barnsmóðir mín er líka trúlaus og við erum bæði utan þjóðkirkjunnar og höfum verið lengi. Drengurinn var því ekki skírður, bara nefndur, við fórum aldrei með hann í kirkju (nema í skírnir hjá ættingjum og aðrar slíkar athafnir) en ræddum samt oft við hann um guð og jesú, hann lærði að fara með bænir hjá ömmu sinni, sem hann gerði á tímabili og við fórum þá með bænirnar með honum. Í skólanum hans urðum við nú ekkert sérstaklega vör við návist kirkjunnar. Eftir því sem við best vitum kom aldrei neinn prestur í heimsókn, en börnunum stóð til boða að fara í kirkjustarf eftir skóla einu sinni í viku. Hann langaði að fara, aðallega vegna félaganna sem fóru allir, og okkur fannst sjálfsagt að leyfa honum það. Þegar kom að fermingunni leyfðum við honum að taka sjálfur ákvörðun, ræddum málin við hann fram og til baka og veltum hlutunum fyrir okkur, þ.e. hvort hann vildi fermast í kirkju, borgaralega eða alls ekki. Hann ákvað að fermast borgaralega. Honum fannst gaman í fermingarfræðslunni og vorkenndi félögum sínum mikið sem þurftu að mæta í messur til að mega fermast. Athöfnin sjálf var skemmtileg og innihaldsrík og allt gekk eins og í sögu. Við erum hæstánægð með borgaralega fermingu og þakklát fyrir samtök eins og Siðmennt.

Semsagt, við foreldrar hans erum trúlaus, en höfum aldrei reynt að þvinga okkar trúleysi á son okkar en höfum vissulega rætt við hann um trú og trúmál á misgagnrýninn hátt, allt eftir aldri hans og þroska. Hann komst svo sjálfur að þeirri niðurstöðu að hann tryði nú eiginlega ekki sjálfur. Þess vegna á ég frekar erfitt með að setja mig í spor þeirra trúlausu foreldra sem segja sorgarsögur af börnunum sínum sem verða útundan í skólastarfi út af prestaheimsóknum. Sjálfum fannst mér ekkert tiltökumál þótt hann færi í kirkjustarf, ég treysti honum einfaldlega til að komast að sinni eigin niðurstöðu með tíð og tíma, og get ekki séð af hverju þetta þarf að trufla aðra foreldra þótt þau séu trúlaus.

Og það er líklega það sem er að trufla mig við þessa ályktun. Vissulega er það gagnrýnisvert að þjóðkirkjan geti sent presta inn í skóla til að boða trú (þó manni skiljist á sögum sem ganga að þeir séu mest að syngja með krökkunum og segja sögur, enda myndu krakkar ekkert nenna að hlusta á einhvern eld og brennistein). En að úthýsa þeim, tja, finnst mér eiginlega bara kjánalegt koppát. Þvert á móti ætti að efla samstarf skólanna við öll trúfélög og lífsskoðunarfélög, ekki bara þjóðkirkjuna, líka múslima, Siðmennt, Ásatrúarmenn o.s.frv., bjóða þeim að senda fólk til að hitta nemendurna og spjalla við þá. Á móti ætti þá að hvetja krakkana til að forvitnast um fólkið og trúna og spyrja gagnrýnna spurninga (því eins og allir vita sem umgangast krakka eru þau mjög góð í að spyrja gagnrýnna og oft ósvífinna spurninga um lífið og tilveruna, og eru auk þess fljót að sjá í gegnum bullið. Þetta yrði þó kannski til þess að sumir trúarhópar kysu að senda ekki fulltrúa í skólana fyrst þeir fá ekki að mala gagnrýnislaust;-). Kennsla í gagnrýnni hugsun er nefnilega það sem helst vantar í skólastarfið, og það er ekki nóg að kenna gagnrýna hugsun, hana verður að efla og hún verður bara efld með því að takast á við lífið og spyrja spurninga um það sem á vegi manns verður. Með því að útiloka trú- og lífsskoðunarfélög frá skólastarfinu er verið að loka krakkana af og vernda þau að ósekju í stað þess að leyfa þeim að takast á við hlutina á eigin forsendum. Eflaust eru margir foreldra sem geta ekki hugsað sér að börnin kynnist því sem foreldrarnir sjálfir hafa andstyggð á, en mér er nokk sama um svoleiðis pakk, foreldrar hafa í sjálfu sér engan rétt á því að troða sinni lífsskoðun upp á börnin sín frekar en aðrir. Skólarnir eiga að veita börnunum eins víðtæka fræðslu um sitt eigið samfélag og kostur er, og það er ekki gert með því að loka þau af inni í skólastofu.

Miðað við umræðuhefðina hérna á Íslandi veitir ekki af gagnrýnni hugsun, að fólk fái að þjálfast í að ræða um hluti og skiptast á rökum og horfa á hlutina frá mismunandi sjónarhornum. Okkur væri kannski barasta viðbjargandi eftir allt saman.

3 ummæli:

mr. d u d e sagði...

Það kemur prestur eða djákni 2svar í mánuði í leikskólan sem dóttir mín er á. Hún kemur heim suma daga syngjandi "esú er besti vinur baaarrnnannaaa" og "á saddi byðði heimskur maður hús" etc. Ég hef aldrei gert neinar athugasemdir við leikskólann, en mér finnst þetta ósmekklegt.

Gummi Erlings sagði...

Ég er sammála því að þetta er ósmekklegt, enda finnst mér annað gilda um leikskóla en grunnskóla. Leikskólabörn hafa ekki þroska til að skilja þetta, og maður fattar eiginlega ekki tilganginn með þessu. Það er varla hægt að kalla þetta trúboð, þar sem börnin hafa ekki þroska til að meðtaka þetta. Væntanlega er þetta gert til að reyna að vekja áhuga barna á kirkjustarfi og læða inn hjá þeim jákvæðum hugmyndum um presta og kirkjur, sem maður verður að segja að er býsna lævísleg og ógeðfelld aðferð.

Arnar sagði...

Takk Gummi, sérstaklega fyrir persónulegann og forvitnilegan pistil.

Ég hef þannig séð ekki miklar áhyggjur af áhrifum trúboðsins á börnin, en mér finnst þetta vera prinsippmál. Ég vil sjá fullan aðskilnað ríkis og kirkju.