miðvikudagur, desember 1

Árið 1918

"Árin líða og tímarnir breytast, alt gengur sinn vanalega gang í ríki náttúrunnar

Kynslóðir fæðast og kynslóðir deyja og altaf kemur nýtt og nýtt í staðin fyrir hið gamla sem líður undir lok

Tíminn er dýrmætur; liðin tími kemur aldrei aftur; sá sem eyðir tímanum í iðjuleysi eða án þess að hafast nokkuð þarflegt að; hann eyðileggur tímann fyrir sjálfum sjer og rækir ekki skyldur sínar við náungann.

Löndin bera vitni um starfsemi þjóðanna, lifnaðarháttu þeirra og framfarir.

Flestar þjóðir eiga í fórum sínum minjar liðinna tíða, frá eldri kynslóðum sem hafa lifað og starfað í löndunum.

Minjar þessar lýsa störfum þjóðanna og menningu.

Fáar þjóðir munu eiga meira af slíkum minjum en Ítalir og Grikkir og lýsir það best hinni fornu menningu þeirra.

Svo langt voru þær komnar í sumum listum að menningarþjóðir nútímans hafa alls ekki komist til jafns við þær.

---Það má með sanni segja að það hafi verið eitt hið viðburða ríkasta ár í sögu mannkynsins og margir hafa þeir atburðir gerst á því er seint munu fyrnast.

Sjaldan eða aldrei hefur verið jafndimt yfir heiminum og í ársbyrjun 1918 þegar svo mátti að orði kveða að flestar þjóðir heimsins bærust á banaspjótum og hin örfáu ríki er hlutlaus voru máttu búast við því á hverri stundu að dragast inn í hringiðu ófriðarins.

Margar þjóðir, bæði hlutlausar og ófriðarþjóðir hafa átt fullt í fangi með að afla sjer daglegs viður væris vegna samgönguleysis og vöruskorts.

Mörgum hugsandi mönnum hryllti við hinu hræðilega ástandi í heiminum, þar sem hinar mentuðustu þjóðir heimsins eyddu kröftum og hugviti til þess að eyðileggja verk margra kynslóða.

Það er óhætt að fullyrða að aldrei hafi eyðileggingin farið jafn hörðum höndum um löndin og í þessum voðalega hildarleik þjóðanna.

Jörðin þar sem barist hefur verið flakir í sárum er seint munu gróa og fjöldi hinna fegurstu listaverka hafa verið eyðilögð.

Þúsundum skipa hefur verið sökt á sjáfar botn og bíða þau þar sem þögul vitni hinnar hræðilegu styrjaldar.

Nú fyrst við árslok 1918 er nokkurnvegin vissa fengin fyrir því að hin lang vinna heimsstyrjöld sem staðið hefur yfir samfleytt í fjögur ár og hálfan fjórða mánuð sje nú að mestuleiti á enda.

Og nú fyrst sjer maður rofa fyrir hinum bjarta friðardegi þegar þjóðirnar láta sjer skiljast að þær eiga að lifa saman í bróðerni og kærleika hver til annarar og stefna að því háleita takmarki að efla frið á jörðu.

---

Nú langar mig til að renna huganum yfir helstu atburði þá er okkur Íslendinga snertir; og er þá fyrst og fremst að minnast á tíðina.

Veturinn frá nýári var ákaflega harður og óvenjulega mikil frost svo að vart eru dæmi til annars eins.

Hafís rak að landi litlu eftir nýár og dvaldi inn í fjörðum fram undir sumarmót, en það sem bjargaði bændum frá heyþroti og skepnufelli var það að vorið kom óvenjulega snemma og var fremur blítt.

Sumar var fremur kalt en þurrviðra samt og var grassprettan víðast hvar slæm og heyfengur bænda lítill.

Haustið var fremur gott, en seint í Október birjaði Katla að gjósa og gerði mikið tjón, einkum sunnanlans.

Veturin fram að nýári 1919 var einmuna góður.

Seinnipart ársins geysaði hin svokallaða "spánska veiki" í Reykjavík og víðar útum land og drap marga menn og þar á meðal ýmsa merkismenn svo sem Guðm. Magnússon rithöfund og Jóh. Kristjánsson ættfræðing og ýmsa fleiri.

Þá vil jeg síðast en ekki síst geta þess atburðar sem gera mun árið 1918 ógleymanlegt í sögu Íslands því að á því ári hefur Ísland verið viðurkent frjálst og full valda ríki með sjer stökum siglingafána og er þar með náð að því takmarki sem þjóðin hefur kepst að í fleiri aldir."


Guðmundur Kristjánsson, 17 ára.
Íslenskur stíll skrifaður á Borðeyri veturinn 1918-1919.

(Þetta er ritgerð eftir afa minn sem fannst í lítilli stílabók ofan í skúffu. Afi fæddist 1901 ólst upp í mikilli fátækt í Dalasýslu og bjó lengst af hjá föðurbróður sínum á Skarði í Haukadal, því langafi þurfti að bregða búi vegna veikinda.)